<$BlogRSDURL$>

föstudagur, október 28, 2005

Tónleikaröð Dúndurfrétta - Review 

Undirritaður skellti sér ásamt ektakvinnu á tónleikaröðina hjá Dúndurfréttum og mætti á fyrri tónleikana bæði kvöldin.

Þriðjudagur, 25. okt. kl. 20:00:
Dúndurfréttir spiluðu samtals í rétt rúma tvo tíma og þeir tóku highlights af besta og þekktasta efni Pink Floyd; Shine on you crazy diamond, Dogs, Mother, Young lust, Another brick in the wall: part 2, In the flesh, Dark-side-of-the-moon-syrpu, Comfortably numb og enduðu á Run like hell(svo eitthvað sé nefnt). Vel framsett og þétt spilamennska einkenndi tónleikana þetta kvöldið og ekki hægt að setja neitt út á hljóðfæraleik né söng Dúndurfrétta-liða. Einar gítarleikari sleit þó reyndar streng í Comfortably numb sem kom aðeins niður á seinna sólói lagsins, en hann tók fram Telecasterinn fyrir Run like hell og það var flott 'múf' að enda tónleikana á því lagi.
Fyndnasta atriði kvöldsins var samt án efa: „Mér finnst eins og að ég sé að spila á sexhundruðáragamalt skrifborð!“ sagði Pétur þegar hann var búinn að koma sér fyrir bak við Hammondið. :þ

Fimmtudagur, 27. okt. kl. 20:00:
Dúndurfréttir spiluðu aftur í rúma tvo tíma og tóku fyrir efni Led Zeppelin, Deep Purple og Uriah Heep.
Þeir tóku 3 lög eftir Uriah Heep; Easy livin', The Wizard og July morning. Það gladdi mig mjög mikið að þeir skulu hafa tekið 3 lög með þeim að þessu sinni þar sem að ég er mikið Uriah-Heep-böff. Raddirnar voru óaðfinnanlegar og gaman að heyra hvað þeir hafa breitt tónsvið og ná að hljóma vel saman. Persónulega mega þeir taka allaveganna eitt lag í viðbót og þá helst eitthvað af Deamons and wizards eða Salisbury en það er náttúrulega bara mín skoðun.
Af lögum Led Zeppelin tóku þeir: The rain song, Good times bad times, Thank you, Dazed and confused, No quarter, Whole lotta love, The song remains the same, Stairway to heaven, Since I've been lovin' you, Kashmir, Immigrant song svo eitthvað sé nefnt. Aftur er hvorki hægt að setja út á spilamennskuna né sönginn og það er alveg ótrúlegt hvað Pétur nær bæði hátt og hljómar líkt meistara Plant þegar hann fer á háu nóturnar. Persónulega finnst mér vanta inní prógrammið hjá þeim South bound saurez sem kom út á plötunni In through the outdoor en það er bara mitt álit.
Deep Purple: Into the fire, Child in time, Soldier of fortune.

Á heildina litið voru þessir tónleikar löngu tímabærir og gaman að heyra hvað mikið er lagt í útsetningu laganna. Ég hef oft haft á orði að það sé eins og maður sé kominn aftur til 1970, inní stúdíó að hlusta á orginal upptökuna ef maður lokar augunum og lætur tónlistina leika um kroppinn allan. Þeir eru allir stórkostulegir hljóðfæraleikarar og skemmtilegt að sjá og heyra þá leggja líf og sál í flutning þessara laga. Shine on you crazy diamond stóð algjörlega uppúr á þriðjudagskvöldinu en á fimmudagskvöldinu stóðu; Into the fire (DP), Easy livin' (UH) og The rain song (LZ) uppúr að mínu mati. Pétur fer inn á nýjar hæðir í Into the fire og sama má segja um gítarleik Einars í The rain song, sem er frábær viðbót við annars glæsilegt prógramm. Trommuleikur Óla var einstaklega þéttur og Ingi fór á kostum á bassanum og það var gaman að heyra í honum í Immigrant song þar sem hann sannaði að hann getur tæklað John Paul Jones hvenær sem er... Matti missti aðeins marks hjá mér í Thank you (LZ) en bætti það fljótlega upp með framúrskarandi söng. Einar er að mínu mati einn af 5 bestu gítarleikurum landsins og það þarf ekkert að tíunda það frekar hvað þetta örvhenta undur framkvæmdi bæði kvöldin. Hljóðblöndunin var mjög góð þó að bassinn hafi á nokkrum köflum verið of hár, gítarinn hjá Einari aðeins horfið og gítarinn hjá Matta hafi ekki alveg skilað sér. Matti er orðinn mjög góður gítarleikari og það er stórgóð viðbót við bandið að hafa 2 gítara.

Ég þakka kærlega fyrir mig og bíð spenntur eftir næstu tónleikum með Dúndurfréttum. Ég vill jafnframt viðra þá hugmynd að Dúndurfréttir taki stærri tónleika, t.d. í Háskólabíói og fái Sinfóníuhljómsveitina til liðs við sig. Það yrði sko 'grúf'!

Eitt að lokum... ég var mjög óheppinn með sessunauta bæði kvöldin (þá meina ég ekki kærustuna mína, heldur hinum megin við mig) og ég vill koma því á framfæri að það er hvorki kúl, né rokk að vera sveittur og illa lyktandi. Ég hvet þá sem fara næst til þess að sjá Dúndurfréttir að skella sér í sturtu áður og setja jafnvel á sig smá rakspíra/ilmvatn svo að fólkið í kringum ykkur nái að njóta tónleikanna betur!

mánudagur, október 17, 2005

Tónleikaröð Dúndurfrétta í Austurbæ 

Pétur í Dúndurfréttum hringdi í mig rétt í þessu til þess að láta mig vita að láta ykkur vita að Dúndurfréttir verða með tónleikaröð í næstu viku!!! Þetta eru að sjálfsögðu gleðifréttir fyrir alla tónlistarunnendur.

Ástæðan fyrir þessum tónleikum er að Dúndurfréttir eru 10 ára í þessum mánuði. Pétur og Matti sátu fyrir 10 árum inná Gauk á stöng og langaði til þess að skrifa á sig bjór á barnum og ákváðu því að stofna hljómsveit. Þannig varð Dúndurfréttir til! Óli var svo fyrsti trommarinn sem þeir þekktu sem gekk inn á Gaukinn og þeir spurðu hann hvort að hann vildi vera með... ekkert flóknara en það!

Tónleikarnir verða fjórir talsins:
Þriðjudaginn 25. október taka Dúndurfréttir bara fyrir Pink Floyd og verða fyrri tónleikarnir klukkan 20:00 og þeir seinni 22:30.
Fimmtudaginn 27. október taka Dúndurfréttir Led Zeppelin, Deep Purple og Uriah Heep fyrir og verða fyrri tónleikarnir klukkan 20:00 og þeir seinni 22:30.

Tónleikarnir verða í Austurbæ (Snorrabraut) og það verður líklegast hægt að fá miða á vefnum: www.midi.is (en ég mun staðfesta það þegar líður á vikuna).
Verð á tónleikana verður um 2500 kall.

EKKI MISSA AF ÞESSU!!!

Lag dagsins er allt með Pink Floyd, Zeppelin, Purple og Uriah Heep! :)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com